Almennur opnunartími alla virka daga frá kl.  08 - 18

Ungbarnavernd

Á Heilsugæslu Salahverfis starfa hjúkrunarfræðingar, heimilislæknar og ljósmæður við ung- og smábarnavernd.  Markmið okkar er að fylgjast reglulega með heilsu og framförum barna og veita foreldrum stuðning þannig að börnum séu búin bestu mögulegu uppvaxtarskilyrði á hverjum tíma.

Heimsóknir og vitjanir í heimahús
Hjúkrunarfræðingar vitja nýfæddra barna og fjölskyldna þeirra. Fjöldi heimsókna fer eftir samkomulagi fyrstu 4 - 6 vikurnar.
Í þessum vitjunum skoðum við barnið, metum þroska þess, vigtum og mælum höfuðmál. Ennfremur veitum við foreldrum ráðleggingar varðandi umönnun barnsins og eigin líðan.  Hikið ekki við að bera upp viðkvæmar spurningar. Við erum til þess að hjálpa ykkur að leita úrræða.
Það er ekki óalgengt að báðir foreldrar finni fyrir breytingu á líðan sinni í einhvern tíma, eftir fæðingu. Sumar mæður finna til vanlíðunar, kvíða og tíðra grátkasta. Of margir skammast sín fyrir þessar tilfinningar og bæla þær niður. Fáar rannsóknir eru til um líðan feðra eftir tilkomu nýs fjölskyldumeðlims. Það hjálpar að ræða opinskátt um líðan sína, öðruvísi fæst ekki sá skilningur og stuðningur sem þörf er á.

Heimsóknir á heilsugæslustöðina
Þegar barnið er sex vikna gamalt er ykkur boðið að koma með barnið í 6 vikna skoðun á heilsugæslustöðina. Þar hittið þið hjúkrunarfræðing og heimilislækni.  Sá hjúkrunarfræðingur sem hefur heimsótt ykkur heim, tekur að öllu jöfnu á móti ykkur á stöðinni. Ágætt er að skrifa hjá sér ýmsar spurningar sem vakna áður en þið komið í heimsóknina.

Við þriggja mánaða aldur hefjast bólusetningar. Frá þeim tíma kemur barnið reglulega í skoðun og bólusetningar.

Skoðanir og bólusetningar

 • Hjúkr.fr./læknir: 6 vikna  skoðun
 • Hjúkr.fr.: 9 vikna  skoðun
 • Hjúkr.fr./læknir: 3 mánaða  skoðun, tvær sprautur. Bólusetning gegn: Kíghósta, barnaveiki, stífkrampa, Haemofilus influenzae sjúkdómi gerð b (Hib) og mænusótt í einni sprautu, pneumókokkum í annarri sprautu sem veitir vernd gegn lungnabólgu, eyrnabólgu, kinnholusýkingum, blóðsýkingum og heilahimnubólgu. 
 • Hjúkr.fr.: 5 mánaða  skoðun, tvær sprautur. Bólusetning gegn: Kíghósta, barnaveiki, stífkrampa, Haemofilus influenzae sjúkdómi gerð b (Hib) og mænusótt í einni sprautu, pneumókokkum í annarri sprautu sem veitir vernd gegn lungnabólgu, eyrnabólgu, kinnholusýkingum, blóðsýkingum og heilahimnubólgu.
 • Hjúkr.fr./læknir: 6 mánaða  skoðun og bólusetning gegn: Meningakokkum-C
 • Hjúkr.fr.: 8 mánaða  skoðun og bólusetning gegn: Meningakokkum-C
 • Hjúkr.fr./læknir: 10 mánaða  skoðun
 • Hjúkr.fr.: 12 mánaða  skoðun, tvær sprautur. Bólusetning gegn: Kíghósta, barnaveiki, stífkrampa, Haemofilus influenzae sjúkdómi gerð b (Hib) og mænusótt í einni sprautu, pneumókokkum í annarri sprautu sem veitir vernd gegn lungnabólgu, eyrnabólgu, kinnholusýkingum, blóðsýkingum og heilahimnubólgu.
 • Hjúkr.fr./læknir: 18 mánaða  skoðun og bólusetning gegn: Mislingum, hettusótt og rauðum hundum
 • Hjúkr.fr.: 2 1/2 árs skoðun, PEDS Mat foreldra á þroska barna, BRIGANCE þroskaskimun
 • Hjúkr.fr./læknir: 4 ára skoðun, sjónpróf, PEDS. Mat foreldra á þroska barna, BRIGANCE þroskaskimun. Á þessu aldursskeiði er barnið bólusett gegn kíghósta, barnaveiki, stífkrampa í einni sprautu

Við 6 ára aldur tekur skólaheilsugæslan við. Frekari bólusetningar eru 12 ára, bólusett gegn mislingum, hettusótt og rauðum hundum, auk þess fá 12 ára stúlkur HPV-bólusetningu sem veitir vörn gegn leghálskrabbameini. Gefnar eru tvær sprautur með 6 mánaða millibili. 14 ára, bólusett gegn barnaveiki, stífkrampa, kíkhósta og mænusótt.

Æskilegt er að fá bólusetningu gegn mænusótt og stífkrampa á 10 ára fresti eftir að barnabólusetningu lýkur.

Mömmumorgnar
Opið hús er í Safnaðarheimili Lindasóknar í Uppsölum 3 á hverjum þriðjudegi frá kl. 10:00 - 12:00. Þangað eru foreldrar velkomnir með börnin sín.


Hvert á að leita ef barnið veikist?
Til heimilislæknis á heilsugæslustöðinni í síma 590 3900 frá kl: 08-18.
Hjúkrunarfræðingar veita upplýsingar og ráðgjöf í síma 590 3900 frá kl. 08-16.

Læknavakt Reykjavíkur. Smáratorgi 1, Kópavogi.

Sími 1770. Opið frá 17:00 - 08:00 virka daga.
Um helgar: Opið allan sólarhringinn.
Viðtals- og vitjanapantanir í síma 1770.

Neyðarvakt lækna, ef ekki næst í heimilislækni eða staðgengil á virkum degi, frá 08:00 - 17:00. Sími 112

 

 

Hvar erum við?

Heilsugæslan Salahverfi
Salavegi 2 - 201 Kópavogi
Sími
590 3900
Almennur opnunartími frá 08 - 18