Almennur opnunartími alla virka daga frá kl.  08 - 18

Fréttir varðandi bólusetningu gegn mislingum

27. mars 2019
 
Nú eru liðnar 3 vikur frá síðasta hugsanlega mislingasmiti og telur sóttvarnarlæknir að líklegast hafi tekist að stöðva faraldurinn að þessu sinni. Því hefur verið ákveðið að bólusetja aftur gegn mislingum, hettusótt og rauðum hundum samkvæmt fyrri áætlun, við 18 mánaða og 12 ára aldur.
 
Ekki er talin ástæða til að bólusetja börn yngri en 18 mánaða nema við sérstök tilefni, eins og þegar ferðast skal til landa þar sem tíðni mislinga er há. 
 
Ekki má bólusetja þungaðar konur eða þá sem eru á ónæmisbælandi lyfjameðferð.
 
Óbólusettir einstaklingar á aldrinum 18 mánaða til 49 ára eru áfram hvattir til að láta bólusetja sig. Hægt er að panta tíma hjá hjúkrunarfræðingum alla virka daga frá kl. 8:30-15:20. Fullorðnir þurfa að borga komugjald en bóluefnið sjálft er skjólstæðingum að kostnaðarlausu.
 
22. mars 2019
 
Í næstu viku, dagana 25. - 29. mars, þarf ekki að bóka tíma fyrir bólusetningu gegn mislingum, hettusótt og rauðum hundum fyrir hádegi (kl. 8-12) en nauðsynlegt er að bóka tíma eftir hádegi (kl. 13-15). Verið engu að síður viðbúin því að nokkur bið geti orðið eftir þjónustunni.
Áfram verður lögð áhersla á sömu forgangshópa og áður:
 
- börn 6-18 mánaða
- fullorðna fædda 1970 eða síðar, sem ekki hafa fengið mislinga og ekki verið bólusettir svo vitað sé
 
Upplýsingar um bólusetningar annarra hópa verða tilkynntar hér á heimasíðunni um leið og tilmæli frá Embættis landlæknis liggja fyrir.
 
 
 
15. mars 2019

Núna er búið að dreifa 6. 500 skömmtum af bóluefni gegn mislingum til heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu. Þá getum við aftur farið að bólusetja.

Fyrirkomulagið er þannig að bólusett verður á opnum móttökum heilsugæslustöðvanna frá kl. 8:20 til 12:00 og 13:00 til 15:00 alla virka daga. Ekki þarf að panta tíma en verið viðbúin að það gæti verið einhver bið. Fullorðnir borga komugjald en enginn greiðir fyrir bóluefnið.

Næstu daga verður áfram lögð áhersla á forgangshópana:

• Börn 6 - 18 mánaða 
• Fullorðna fædda 1970 eða síðar, sem ekki hafa fengið mislinga og ekki verið bólusettir svo vitað sé

Svo verður öðrum óbólusettum boðið að koma í bólusetningu. Það verður kynnt þegar þar að kemur.

Ef fullorðið fólk hefur verið bólusett einu sinn er það nóg og það þarf ekki að koma í bólusetningu. Fólk með eina bólusetningu er varið í 93% tilfella en fólk með tvær bólusetningar er varið í 97% tilfella.

Heilsugæslustöðvar eru yfirleitt ekki í aðstöðu til að fletta upp eldri bólusetningum, þannig að við getum ekki svarað spurningum um hvort fólk er bólusett.  Allir eiga að hafa fengið blá bólusetningakort sem leynast gjarnan á góðum stað í skúffum foreldra. 

Efni tekið af vef Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. 

 

 
 
14.03.19

Vinnsla hafin við dreifingu bóluefnis um landið. Ekki greinst ný tilfelli.

Á fundi sóttvarnalæknis í morgun, fimmtudaginn 14.3.2019 kom fram að ekki hafa greinst ný tilfelli mislinga. Samtals hafa 6 tilfelli verið greind á undanförnum vikum. Þar af er 19 mánaða drengur sem greindist með mislinga þrem vikum eftir bólusetningu. Hann veiktist með mislingalíkum útbrotum þann 11.3.2019 en var einkennalaus að öðru leyti. Hugsanlega er hér um útbrot af völdum bólusetningarinnar að ræða.

Bólusetningar geta valdið mislingalíkum útbrotum í um það bil 5% tilfella. Útbrotin og önnur möguleg einkenni eru oftast væg og eru mjög litlar líkur á smiti til annarra í slíkum tilfellum.

10.000 skammtar af bóluefni eru komnir til landsins og er vinnsla hafin við dreifingu þeirra um allt land. Sóttvarnalæknir hefur í samráði við umdæmis- og svæðislækna ákveðið eftirfarandi:

 1. Á svæðum þar sem mislingar hafa verið að greinast eins og á Austfjörðum og á höfuðborgarsvæðinu þá verður lögð áhersla á að allir/flestir óbólusettir á aldrinum 6 mánaða til 49 ára (fæddir eftir 1970) fái eina bólusetningu. Bólusettir einstaklingar á aldrinum 6-12 mánaða þurfa bólusetningu nr. 2 við 18 mánaða aldur. Eldri en 12 mánaða þurfa bara eina bólusetningu (og svo aftur við 12 ára).
 2. Útsettir einstaklingar fái bólusetningu innan 72 klst. eftir útsetningu fyrir mislingum til að minnka líkur á veikindum.
 3. Útsettir einstaklingar og náinn umgangshópur þeirra sem fer í sóttkví fái bólusetningu jafnvel þó að þeir hafi verið bólusettir áður.
 4. Ekki á að bólusetja einstaklinga eldri en 49 ára (fæddir fyrir 1970) þar sem miklar líkur eru á að þeir hafi fengið mislinga á sínum tíma.
 5. Á svæðum þar sem mislingar hafa ekki greinst er mælt með bólusetningu óbólusettra einstaklinga 12 mánaða og eldri (ekki 6-12 mánaða).
 6. Ekki er talin ástæða til að bólusetja börn yngri en 12 mánaða sérstaklega vegna ferðalaga erlendis, nema í undantekningartilvikum til landa þar sem mislingar eru algengir en eftirfarandi 10 lönd eru með hæstu tíðni mislinga skv. upplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni: Madagaskar, Úkraína, Indland, Brasilía, Filipseyjar, Venesúela, Taíland, Pakistan, Yemen og Ísrael.
 7. Með ofangreindum tilmælum er ekki verið að breyta almennum bólusetningum á Íslandi. Reglubundnar bólusetningar gegn mislingum eru áfram við 18 mánaða aldur og seinni sprauta við 12 ára aldur.
 8. Rétt er að árétta að staðfest eggjaofnæmi er ekki frábending gegn bólusetningu nema ef viðkomandi er með sögu um lífshættuleg ofnæmisviðbrögð.

Nánari upplýsingar varðandi framkvæmd bólusetninganna verður hægt að finna á heimasíðum einstakra heilsugæslustöðva þegar þær liggja fyrir.

Frekari upplýsingar varðandi mislinga eru veittar á netspjalli, heilsugæslunnar, www.heilsuvera.is og í síma 1700.

 

 

Ef einstaklingar telja sig eða börn sín geta verið veik af mislingum, á að hringja í síma 1700 eða á heilsugæslustöð. Ekki  koma beint á heilsugæslustöðvar eða sjúkrahús.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum þá hafa fjórir einstaklingar greinst með mislinga á Íslandi. Fyrsti smitaðist erlendis, en hinir þrír smituðust á Íslandi. Tveir fullorðnir einstaklingar hafa greinst og tvö börn. Allir einstaklingarnir voru óbólusettir eftir því sem best er vitað og smituðust allir þrír í flugi Iceland Air Connect þann 15.2.2019. Þetta sýnir að mislingar eru mjög smitandi og smitast auðveldlega á milli einstaklinga í sama loftrými og við litla sem enga snertingu.

Sóttvarnalæknir, í samvinnu við heilsugæsluna, Landspítala, Læknavaktina og fleiri aðila, hefur unnið að eftirfarandi sóttvarnaráðstöfunum sem miða að því að hindra frekari dreifingu sýkingarinnar:

 1. Sóttkví. Allir einstaklingar sem eru óbólusettir og komist hafa í snertingu við mislingasmit eru beðnir um halda sig heima frá degi 6 til dags 21 eftir að hafa verið útsettir. Á þessum tíma geta veikindi komið fram og eru einstaklingar þá smitandi og verða reyndar smitandi um einum sólahring áður en sjálf veikindin byrja. Ekki þarf að setja bólusetta einstaklinga í sóttkví.
 2. Bólusetning gegn mislingum. Ef einstaklingur sem verður fyrir smiti er bólusettur innan 72 klst. frá smiti þá eru góðar líkur á því að einstaklingurinn veikist ekki. 
  Mælt er með bólusetningu óbólusettra fjölskyldumeðlima þeirra sem komast í snertingu við mislingasmit því það mun koma í veg fyrir áframhaldandi útbreiðslu. 
  Bólusetningu má gefa börnum allt niður í 6 mánaða aldur en árangurinn er ekki alveg ótvíræður á aldrinum 6–12 mánaða og þarf því að bólusetja þessi börn aftur við 18 mánaða aldur.
 3. Meðhöndlun veikra. Ef einstaklingar telja sig eða börn sín geta verið veik af mislingum þá er fólk beðið um að koma ekki beint á heilsugæslustöðvar eða sjúkrahús heldur hafa fyrst samband símleiðis í síma 1700 eða við sína heilsugæslustöð. Þar fær fólk ráðleggingar og mun sjá um að senda lækni heim til viðkomandi ef ástæða þykir til, til að greina og staðfesta sýkinguna. Einnig verður hægt að senda viðkomandi á sjúkrahús til meðferðar samkvæmt fyrirfram ákveðnum leiðbeiningum sem gefnar verða.
 4. Upplýsingar um mislinga og mislingasmit. Til að fá upplýsingar um mislinga og mislingasmit má hringja í síma 1700 og einnig til heilsugæslustöðva.

Sóttvarnalæknir telur litlar líkur á útbreiddum faraldri hér á landi ef öllum ofangreindum varúðarráðstöfunum verður fylgt. Að auki er rétt að benda á að almenn þátttaka í bólusetningum hér á landi er um 90–95% sem á að duga til að koma í veg fyrir útbreiddan faraldur.

 

Fréttin á pólsku:

Nowości w języku polskim Opnast í nýjum glugga

Sóttvarnalæknir

Efni tekið af vef Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og vef Embættis landlæknis 

 

Tilkynning 12.03.2019

 

Getið þið athugað hvort ég sé bólusett/ur við mislingum? Og hvort ég sé með eina eða tvær bólusetningar?

 

Þetta eru algengustu spurningarnar sem við fáum þessa dagana og stutta svarið er NEI.

 

Hægt er að sjá bólusetningar sem gefnar voru eftir að farið var að skrá bólusetningar í rafrænan bólusetningargrunn, inn á mínum síðum á Heilsuvera.is eða á island.is

 

Ef bólusetningin þín er ekki skráð rafrænt, höfum við ekki tækifæri til þess að fletta þér upp eins og staðan er dag.

 

Eldri bólusetningaskrár eru ekki aðgengilegar á heilsugæslustöðvum. Það er mjög tímafrekt að leita í þeim þar sem þær eru í geymslum og skjalasöfnum. Það er líka dýrt og seinlegt að mæla mótefni.

 

Þeir sem eru fæddir eftir 1975 eru líklegast bólusettir nema foreldrar þeirra hafi hafnað bólusetningu. Allir fengu bólusetningarskírteini sem oft eru til í fórum foreldra þeirra. Ef bólusetning er skráð í kringum 12 ára aldur er það líklegast mislingabóluseting.

 

Ef þú átt ekki bólusetningakort og hvorki þú, né foreldrar þínir, muna eftir að þú hafir fengið mislinga mælum við með því að þú mætir í bólusetningu ef þú ert fæddur 1970 eða síðar.

 

Það er skaðlaust að fá bólusetningu aftur og það er einfaldasta, ódýrasta og öruggasta leiðin.

 

Þess skal einnig getið að fólk með eina bólusetningu er varið í 93% tilfella en fólk með tvær bólusetningar er varið í 97% tilfella.

 

Hvar erum við?

Heilsugæslan Salahverfi
Salavegi 2 - 201 Kópavogi
Sími
590 3900
Almennur opnunartími frá 08 - 18