Vinsamlegast kynnið ykkur nýjustu fréttir vegna COVID-19 veirunnar – fréttirnar eru uppfærðar reglulega. Fara á vef Landlæknisembættisins
 

Á Heilsugæslunni í Salahverfi er boðið upp á sálfræðiþjónustu fyrir börn og ungmenni að átján ára aldri, verðandi mæður og mæður með ungabörn auk þess sem í boði eru námskeið í hugrænni atferlismeðferð fyrir fullorðna, átján ára og eldri. Sálfræðingur stöðvarinnar heitir Hafdís Einarsdóttir.

Fyrirkomulag sálfræðiþjónustunnar er með þeim hætti að heimilislæknar meta þjónustuþörf með hverjum og einum. Eftir atvikum útbúa þeir tilvísanir í sálfræðiþjónustu heilsugæslustöðvarinnar. Fjöldi viðtala ræðst af faglegu mati sálfræðings hverju sinni en almennt er miðað við að tilvísun gildi fyrir 4-6 sálfræðiviðtöl, að hámarki. Þjónustan fer einnig fram með námskeiðum. Rétt er að benda á  að biðtími er eftir sálfræðiþjónustu.

Til að stuðla sem best að heildstæðri og árangursríkri þjónustu starfa sálfræðingar, læknar, hjúkrunarfræðingar og ljósmæður heilsugæslustöðvarinnar saman að úrlausnum skjólstæðinga sinna. 

Sálfræðiþjónustunni er ekki ætlað að sinna greiningum á frávikum í þroska, hegðun og líðan né  alvarlegri og langvinnum geðheilbrigðisvanda, bráðum geðvanda svo sem sjálfsvígshættu, sjálfskaðandi hegðun, eða geðrofsvanda. Ef grunur er um frávik í þroska, hegðun, líðan barna er til að mynda hægt að leita ráða hjá þjónustumiðstöðvum eða sérfræðiþjónustum við skóla. Einnig er hægt að hafa samband við sjálfstætt reknar sálfræði- og læknastofur. Í bráðatilvikum er fólki bent á að hafa samband við bráðaþjónustu geðsviða Landspítala Háskólasjúkrahúss. Barna- og unglingageðdeild (BUGL) er að Dalbraut 12 og er opin virka daga frá 8:00-16:00. Á dagvinnutíma er bráðasímtölum svarað í síma 543-4300. Á öðrum tímum er símtölum beint til legudeildar í síma 543-4320 og 543-4338. Bráðamóttaka geðdeildar fyrir fullorðna er á fyrstu hæð í geðdeildabyggingunni við Hringbraut. Þangað getur fólk leitað með bráðan geðrænan vanda án þess að eiga pantaðan tíma. Móttakan er opin alla virka daga frá klukkan 12:00-19:00. Um helgar er þar opið frá klukkan 13:00-17:00. Sími bráðamóttökunnar er 543-4050. Í neyðartilvikum utan þessa tíma er hægt að leita til bráðamóttökunnar Fossvogi.

Sálfræðiþjónusta við börn og mæður

Sálfræðiþjónusta við börn og ungmenni að átján ára aldri og mæður er í formi einstaklingsviðtala og námskeiða. Sá hluti þjónustunnar sem snýr að börnum og unglingum fer einnig fram hjá sálfræðingum á Sálstofunni á grundvelli samstarfsamnings.

Sálfræðiþjónusta við fullorðna frá átján ára aldri

Sálfræðiþjónusta við átján ára og eldri fer fram með námskeiðum í hugrænni atferlismeðferð. Námskeiðin samanstanda af sex vikulegum tímum sem eru tvær klukkustundir í senn. Farið er yfir undirstöðuaðferðir hugrænnar atferlismeðferðar og hvernig hægt er að hafa áhrif á líðan með því að grípa inn í sjálfvirk mynstur neikvæðra hugsana og óhjálplegra viðbragða.

 

Hvar erum við?

Heilsugæslan Salahverfi
Salavegi 2 - 201 Kópavogi
Sími
590 3900
Almennur opnunartími frá 08 - 17